Íslenskir fjallaleiðsögumenn hafa innleitt sérstakt gjald af ferðamönnum sem fara um Laugaveginn. Gjaldið nemur 1% af fargjaldi og er því ætlað að laga skemmdir vegna átroðnings og koma í veg fyrir að landið láti meira á sjá vegna sívaxandi straums ferðamanna, að því er fram kemur í Morgunblaðinu.

Elín Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri Íslenskra fjallaleiðsögumanna, segir í samtali við blaðið að bæta þurfi stíga, bæði merkingar og eins þarfnast viðkvæmir hlutar leiðarinnar uppbyggingar. Þá þarf að huga að salernisaðstöðu á milli skála.