Alls kyns aukagjöld sem flugfélög leggja ofan á miðaverð, svo sem sala á mat og farangursgjald (sem áður voru hluti af miðaverði) auk nettengingar í flugvélinni svo nokkur dæmi séu tekin, skiluðu flugfélögum heimsins um 22 milljörðum dala, um 2.530 milljörðum króna, í auknar tekjur á síðasta ári. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu sem birt verður í dag og Wall Street Journal vitnar í.

Samkeppni hefur aukist mikið á flugmarkaði undanfarin ár sem hefur falið í sér þrýsting til lækkunar á miðaverði samtímis sem kostnaður, m.a. eldsneytis- og matarkostnaður, hefur hækkað. Fyrir vikið hafa flugfélögin þurft að leita nýrra tekjulinda. WSJ hefur eftir Ian Wheeler, markaðs- og dreifingarstjóra Amadeus IT Group sem sér flugfélögum fyrir hugbúnaði, að aukagjöld séu vaxtarmarkaður og séu komnar til að vera. Amadeus vann skýrsluna í samstarfi við ráðgjafafyrirtækið IdeaWorks.

Samkvæmt skýrslunni sögðust 47 af stærstu flugfélögum heims samanlagðar tekjur sínar af aukagjöldum hafa verið 15,11 milljarða evra á liðnu ári sem sé hækkun um 38% frá árinu 2009. Árið 2007 tilkynntu aðeins 23 flugfélög um tekjur vegna aukagjalda og þá voru þær samanlagt um 2,5 milljarðar dala.

Fyrst um sinn voru það lággjaldafélög á borð við Ryanair, sem hefur verið brautryðjandi á þessu sviði, sem rukkuðu aukagjöldin en WSJ segir stærri flugfélög á borð við United Continental, Delta og American Airlines feta þessa braut í sífellt meiri mæli.