Á aðalfundi MP banka sem fram fór síðasta fimmtudag var samþykkt að veita stjórnarmönnum bankans aukagreiðslu vegna starfa á síðasta fjárhagsári hans. Þorsteinn Pálsson, stjórnarformaður bankans, staðfesti það í samtali við Viðskiptablaðið í síðustu viku og sagði tillöguna til komna þar sem mikill tími hafi farið í sameiningarviðræður hjá stjórnarmeðlimum. Tillagan hafi falið í sér að greiða ætti sérstaklega fyrir þá vinnu.

Í frétt Viðskiptablaðsins sem birt var um málið kom fram að greiðslurnar næmu helmingi mánaðarlauna stjórnarmeðlima, en það var byggt á upplýsingum frá Þorsteini sjálfum. Nú hefur Þorsteinn hins vegar komið þeirri leiðréttingu á framfæri að greiðslan muni ekki nema helmingi af mánaðarlaunum stjórnarmeðlima, heldur árslaunum.

Samkvæmt því mun aukagreiðsla til Þorsteins nema 3,3 milljónum króna, en hann hefur 550 þúsund krónur í mánaðarlaun fyrir störf sín sem stjórnarformaður. Þá munu hinir fjórir meðlimir stjórnarinnar fá 6,6 milljónir króna samtals, en samkvæmt ársreikningi síðasta árs höfðu þeir 275 þúsund krónur á mánuði hver.

Nemur aukagreiðslan því í heildina 9,9 milljónum króna, en ekki 825 þúsund krónum líkt og áður var greint frá.