Heildarskattgreiðslur starfandi fjármálafyrirtækja vegna sérstakra skattgreiðslna á fjármálafyrirtæki nemi 15 milljörðum íslenskra króna.  Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Samtaka fjármálafyrirtækja (SFF).

Vöggugjöf nýju bankanna frá þeim gömlu

Segja þeir þessa sérstöku skattlagningu vera vöggugjöf nýju bankanna eftir fall þeirra gömlu, þannig að nýju bankarnir séu látnir bera kostnað vegna banka sem urðu gjaldþrota sama ár og þeir voru stofnaðir.

Sé það réttlætt vegna búsifja bankahrunsins og efnahagssamdráttarins.

Hærri gjöld og skatthlutfall

Skatthlutfallið sé 28% á hagnað umfram 1 milljarð en að auki sé iðgjald í Tryggingasjóð innistæðueigenda og fjárfesta mun hærra en í öðrum löndum á EES svæðinu.

Loks séu gjöld vegna fjármálaeftirlits eru mun hlutfallslega mun hærri auk þess sem við bætist gjaldtaka vegna reksturs embættis umboðsmanns skuldara.

Vilja skoða sanngirni um meiri kvaðir á fjármálafyrirtæki en gerist erlendis

Segja samtökin því sé nauðsynlegt að stjórnvöld geri upp við sig hversu langt séríslensk reglusetning eigi og megi ganga og hvaða forsendur og sanngirnissjónarmið liggi að baki því að íslensk fjármálastofnanir beri kvaðir umfram erlend.

Jafnframt að hugað sé að því hvaða séríslensku aðstæður séu raunverulega til staðar og með hvaða hætti eigi að bregðast við þeim.

Ekki hægt að rökstyðja með vísan í þjóðhagsvarúð

Segir í skýrslunni að ljóst sé að ekki sé hægt að rökstyðja allt í núverandi reglu- og skattaumhverfi með vísan til þjóðhagsvarúðar, né heldur með hefðbundnari rökum.

Eru þeir þar að meina hina sérstöku skattheimtu sem íslenskar fjármálastofnanir búi við, og nefna þá sérstaklega þrjá skatta.

Þrír aukaskattar á fjármálafyrirtæki

Það er sérstakan skatt á fjármálafyrirtæki sem nemur 0,376% af skuldum fyrirtækja umfram 50 milljarða, fjársýsluskatt sem nemur 5,5% af heildarlaunagreiðslum fjármálafyrirtækja og loks sérstakan fjársýsluskatt sem er 6% viðbótartekjuskattur á fjármálafyrirtæki sem leggst á hagnað umfram 1 milljarð.

Þannig nemi skatturinn á þann hagnað sem fer fram úr 1 milljarði 28%.

Í tilefni útgáfu skýrslunnar munu SFF standa fyrir ráðstefnu á miðvikudaginn í næstu viku, sem fram fer á Hilton Reykjavík Nordica. Ráðstefnan hefst 8.30 og stendur til 10.15.