Tíu af þeim fimmtán flugfélögum sem fljúga til og frá Keflavík í sumar rukka farþegana fyrir sætisval. Verðið er á bilinu 600 til 3000 krónur, fyrir aðra leiðina.

Frá þessu er greint á vefsíðunni Túristi.is. Þar segir að til að fjölskylda með börn vilji vera örugg um að sitja saman þurfi eftir tilvikum að tak frá sæti fyrirfram, sem gæti kostað nokkuð þúsund krónur. Fjögurra manna fjölskylda sem pantar venjuleg sæti hjá Wow Air greiðir samtals 7.920 krónur aukalega fyrir báðar leiðir eftir því sem fram kemur á síðunni.

Samkvæmt athugun sem Túristi hefur gert síðustu daga þá voru að jafnaði átta af hverjum tíu sætum í vélum EasyJet frátekin daginn fyrir brottför. Hjá Wow air var hlutfallið 13,5 prósent. Í könnuninni voru aðeins skoðuð flug frá Keflavík til Lundúna. Af niðurstöðum könnunarinnar að dæma þá eru farþegar Easy Jet mun líklegri til að taka frá sæti en þeir sem fljúga með Wow Air.

Sjá nánar á vef Túrista.