Matís (Matvælarannsóknir Íslands) og norska rannsóknafyrirtækið SINTEF hafa gert með sér samkomulag sem hefur það að markmiði að efla rannsóknir, þróun og virði í sjávarútvegi og matvælaiðnaði á Íslandi og í Noregi. Samkomulagið gerir Matís kleift að taka þátt í rannsóknaverkefnum í samstarfi við SINTEF og norsk fyrirtæki í fiskeldi og matvælarannsóknum.

Þá mun samkomulagið auka möguleika Matís á því að kynna starfsemi sína á erlendum vettvangi og taka þátt í fleiri alþjóðlegum og samevrópskum rannsóknaverkefnum. Samkomulagið mun einnig gera íslenskum fyrirtækjum og stofnunum mögulegt að þróa samstarf með SINTEF og fyrirtækjum og rannsóknarstofnunum erlendis, samkvæmt því sem segir í tilkynningu vegna samkomulagsins.

Í tilkynningunni segir einnig að helstu styrkleikar SINTEF fyrir íslenskan sjávarútveg og matvælaiðnað séu þekking í sjávarútvegi, svo sem í fiskeldi. SINTEF getur boðið fram aðstoð í rannsóknum og þróun á þorskeldi og vinnslutækni í sjávarútvegi, þ.m.t. veiðum. SINTEF er í nánu samstarfi við NTNU (Tækniháskólann í Þrándheimi) sem eykur möguleika íslenskra menntastofnana á alþjóðlegu samstarfi.