Færeyska félagið Atlantic Petroleum [ FO-ATLA ] skilaði 11,2 milljóna DKK tapi af rekstrinum á þriðja fjórðungi ársins en á sama fjórðungi í fyrra var tapið 258 þúsund DKK. Heildareignir félagsins námu 373,2 milljónum DKK í lok september og eigið fé nam 249,2 milljónum DKK.

Félagið starfar á sviði olíuleitar og olíuvinnslu og tapið skýrist af því að olíuvinnslan er enn á frumstigi og ekki farin að skila tekjum. Í afkomutilkynningu frá félaginu er haft eftir forstjóra þess, Wilhelm Petersen, að eitt af olíuleitarsvæðum félagsins fari að skila tekjum seint á þessu ári eða snemma á því næsta.