Tap á rekstri deCODE Genetics, móðurfélagi Íslenkrar erfðagreiningar, jókst á fjórða ársfjórðungi og nam 19,4 m. dollara (um 1,2 ma.kr.) samanborið við 10,6 m.dollara á sama ársfjórðungi árið áður. Tekjur á fjórðungnum námu rúmum 11 m.dollara sem er lítillega minna en á sama ársfjórðungi árið áður. Rekstrargjöld hækkuðu um 5 m. dollara vegna rannsóknar- og þróunarkostnaðar lyfjaþróundardeildar félagsins. Órekstrartengd gjöld jukust einnig og námu 2,4 m.dollara og eru til komin vegna gengisáhrifa.

Tap á síðasta ári nam samtals 57,3 m.dollara (um 3,5 ma.kr.) sem er aukning frá árinu 2003 þegar tapið var 35,1 m.dollara. Tekjur félagsins á árinu námu 42,1 m.dollara en voru 46,8 m.dollarar árið 2003. Í Morgunkorni Íslandsbanka er bent á að þetta sé töluvert undir væntingum markaðsaðila og einnig undir því tekjuviðmiði sem félagið hefur gefið út. Nýlega lækkaði félagið tekjuviðmið sitt úr 50 m.dollara í 41-43 m.dollara. Ljóst er að félagið bindur miklar vonir við klínískar rannsóknir og mikil tækifæri liggja í þeim. Mjög mikilvægt er að vel takist til með þróun lyfja til að tryggja framtíðartekjustofna. Handbært fé lækkaði um 20,2 m.dollara á árinu og var 198,3 m.dollara í lok árs.

Byggt á Morgunkorni Íslandsbanka.