Í skýrslu sem unnin var fyrir umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið og birt var í mars síðastliðnum kemur fram að samkvæmt uppfærðri sviðsmynd Samorku vegna breyttra loftslagsmarkmiða sé þörf fyrir tæplega 24 TWst af orku fram til ársins 2040, sem þýðir meira en tvöföldun á núverandi orkuframleiðslu.

Jafnframt kemur fram í skýrslunni að takmarkað hafi verið virkjað á undanförnum árum miðað við eftirspurn þótt undirbúningsvinna hafi farið fram við sumar virkjanir sem heimilar eru í núverandi nýtingarflokki. Engin ný virkjun yfir 10 MW hafi fengið virkjunarleyfi síðastliðin fimm ár og þriðji áfangi rammaáætlunar bíði afgreiðslu Alþingis.

Að sögn Ásbjargar horfir Landsvirkjun til tveggja þátta hvað varðar þær 19 aflstöðvar sem þegar eru í rekstri. Annars vegar sé hægt að auka uppsett afl og hins vegar auka framleiðslugetu. „Aukið afl er nauðsynleg stoð fyrir raforkukerfið hér á Íslandi til að geta tekið á móti frekari raforkuframleiðslu með vindmyllum.

Fram að þessu höfum við stólað á jarðvarma og vatnsafl til raforkuframleiðslu. Báðir þessir aflgjafar eru þess eðlis að þeir þurfa ekki að mæta jafn miklum sveiflum eins og vindmyllur og sólarsellur - vindmyllur framleiða eðli málsins samkvæmt einungis rafmagn þegar vindurinn blæs og sólarsellurnar þegar sólin skín.

Með uppistöðulónum er hins vegar hægt að stýra miklu betur raforkuafhendingu vatnsaflsstöðva heldur en vindurinn og sólin gætu nokkurn tímann boðið upp á. Það sama gildir um jarðvarmann," segir Ásbjörg.

Ef markmiðið sé að ætla samhliða þessum orkugjöfum að bæta við vindmyllum þurfi þær að virka þannig að vindorkunni sé hleypt beint inn á kerfið og í sölu. Þá þurfi að vera hægt að draga úr framleiðslu í vatnsaflsstöðvum með því að halda vatninu eftir í uppistöðulónum, en til að ná þeim sveigjanleika fram þurfi að auka aflgetu stöðvanna til að geta í kjölfarið aukið vindaflsgetu í kerfinu. Þannig geti vindafl komið inn sem þriðja stoð endurnýjanlegrar orku.

Nánar er fjallað um málið í fylgiritinu Samorkuþing, sem fylgdi Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .