Árið 1940 var Rannsóknarráð ríkisins stofnað, en talið er að það hafi verið fyrsta rannsóknarráð Norðurlandanna. Með tímanum breyttust nöfn og áherslur, en árið 1994 var nafni ráðsins breytt í Rannsóknarráð Íslands. Árið 2003 er Rannsóknarmiðstöð Íslands sett á fót, sem ber í dag nafnið Rannís. Í grunninn hefur starfsemin þó gengið út á það að efla íslenskt þekkingarsamfélag.

Rekstur samkeppnissjóða er efst á baugi og eru Tækniþróunarsjóður og Rannsóknarsjóður helstu sjóðirnir í dag. Fyrstu úthlutanir þessara sjóða áttu sér stað árið 2004. Síðan þá hafa ófá verkefni fengið stuðning Rannís. Opinbert fjármagn til nýsköpunar hefur aukist verulega frá 2015 og mun framlag Tækniþróunarsjóðs árið 2017 til að mynda nema tæpum 2,4 milljörðum króna. Tækniþróunarsjóður heyrir undir ráðuneyti iðnaðar og nýsköpunar.

Blaðamaður Viðskiptablaðsins ræddi við Sigurð Björnsson, sviðsstjóra rannsókna- og nýsköpunarsviðs, um áhrif sjóðanna á íslenskt frumkvöðlaumhverfi. Sigurður hefur verið hjá Rannís frá og með árinu 2008. Hann segir Rannsóknarsjóðinn vera hannaðan fyrir grunnrannsóknir háskóla og rannsóknastofnana, á meðan Tækniþróunarsjóðurinn er hannaður fyrir nýsköpunarfyrirtæki og hagnýt verkefni.

Markmið Tækniþróunarsjóðs skýr

Sigurður segir markmið sjóðsins skýr en lykilorð sjóðsins eru fjölbreytni, framkvæmd og árangur. „Við reynum eftir bestu getu að auka nýliðun í sjóðinn og tryggja að nýsköpunarkeðjunni sé vel sinnt, allt frá rannsóknum og vöruþróun til markaðsmála. Við viljum styðja ný tækifæri, fólk og fyrirtæki með sérstakar áherslur og nýjar hugmyndir.“

Tækniþróunarsjóður hefur þó einnig lagt áherslu á að ýta undir fjölbreytt alþjóðlegt samstarf og svokallaða tækniyfirfærslu, en þá er átt við yfirfærslu á rannsóknarverkefnum á t.d. háskólastigi yfir í hagnýt verkefni. Framkvæmd skiptir sjóðinn miklu máli og því er leitast við að bæta ferla. „Fyrirtækin verða að skila mælanlegum árangri og við erum hér til að styðja fyrirtæki í ákveðinni vegferð. Með styrkjunum er hægt að hraða þróun afurða og skila betri niðurstöðum.“

Nánar er fjallað um aukið fé til nýsköpunnar og fjölda annarra frumkvöðlafyrirtækja í nýja tímaritinu Frumkvöðlum. Áskrifendur Viðskiptablaðsins geta nálgast eintak af blaðinu á pdf-formi með því að smella á hlekkinn Tölublöð .