Íslenska flugfélagið Wow air, sem hefur verið í miklum sóknarhug upp á síðkastið, mun auka flugframboð sitt til Bandaríkjanna og Evrópu á næsta ári. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá flugfélaginu.

Tvisvar á dag til Lundúna, Parísar og Amsterdam

„Flogið verður tvisvar á dag til Lundúna, Parísar og Amsterdam. Þá verður flogið daglega til San Francisco og Los Angeles en nú er flogið þangað fjórum til fimm sinnum í viku allan ársins hring,“ segir í tilkynningunni.

Þessi aukning stafar af aukinni eftirspurn eftir flugi á góðum kjörum milli Evrópu Bandaríkjanna. Það sem af er ári hefur Wow air flutt 1,17 milljón farþega.

Sala beggja vegna Atlantshafsins gengið afar vel

Haft er eftir Skúla Mogensen, forstjóra og eigenda Wow air, að sala beggja vegna Atlantshafsins hafi gengið afar vel og því ákvað flugfélagið að auka framboðið og fljúga daglega og í mörgum tilfellum tvisvar á dag allan ársins hring á þeirra helstu áfangastaði.

30 áfangastaðir

„WOW air mun á næsta ári fljúga til yfir þrjátíu áfangastaða bæði í Evrópu og Norður-Ameríku. Á þessu ári bættust sex nýir áfangastaðir við ört vaxandi leiðakerfi WOW air og er flogið til þeirra allan ársins hring en félagið hóf flug til Edinborgar, Bristol, Frankfurt, Stokkhólms, Los Angeles og San Francisco. Í nóvember mun New York bætast í hópinn og næsta vor hefst flug til Miami,“ segir að lokum í tilkynningu Wow air.