Eins og Viðskiptablaðið greindi frá fækkaði heildarfjöldi gistinátta um 3% í ágúst. Gistinóttum á hótelum hefur hins vegar fjölgað um 2%. Frá þessu er greint á vef Hagstofunnar.

Gistinætur á hótelum í ágúst síðastliðnum voru 513.400, sem er 2% fjölgun frá sama mánuði samanborið við árið áður. Fjöldi gistinátta á hótelum á höfuðborgarsvæðinu stóð hins vegar í stað. Hótelgistinóttum fækkaði um 10% á Vesturlandi og Vestfjörðum en fjölgaði í öllum öðrum landshlutum. Um 49% allra hótelgisinátta voru á höfuðborgarsvæðinu.

Hlutfall gistinátta Íslendinga á hótelum breyttist lítillega milli ára en þær voru um 7% af heildarfjölda gistinátta eða 37.491. Bandaríkjamenn voru með flestar gistinætur eða 145.600, þar á eftir koma Þjóðverjar með 51.200 og síðan Kínverjar með 31.000.

Frá ágúst 2014 hefur framboð hótelherbergja á landinu farið úr 6.200 herbergjum upp í 11.000 sem er 77% aukning. Hins vegar hefur herbergjanýting lækkað um 2,1 prósentustig frá ágúst 2018 til ágúst 2019. Hún var 84,9% þá en er nú 82,8%. Nýtingin var best á Suðurnesjunum eða 89,6%.