*

þriðjudagur, 27. júlí 2021
Innlent 4. júlí 2020 19:01

Aukið gegnsæi með verðmati á netinu

Verðmat fasteigna verður sífellt aðgengilegra, bæði Procura og Two Birds bjóða upp á slíkt sem byggt er á þinglýstum kaupsamningum.

Alexander Giess
Auður Björk Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Two Birds og G. Andri Bergmann, stofnandi Procura.
Eyþór Árnason

Aðgengi að verðmati fasteigna á Íslandi hefur verið að aukast. Nú eru til að mynda þrjár vefsíður sem bjóða upp á áætlað söluverð fyrir íbúðaeignir á Íslandi: Procura, Second og Two Birds. Þjónustan er tiltölulega nýleg en síða Procura var sett á laggirnar árið 2017, verðmat Two Birds kringum mars 2019 og Second var sett af stað í september síðastliðnum.

Á vefsíðu Procura er hægt að nálgast áætlað sölu- og leiguverð fyrir íbúðaeignir á höfuðborgarsvæðinu en notast er við þinglýsta kaupsamninga til að nálgast matið. Sambærilegar eignir eru bornar saman og reiknirit síðunnar áætlar verðmat eignarinnar sem er svo uppfært mánaðarlega samkvæmt gögnum Þjóðskrár.

Engar tekjur enn sem komið er

Eftir um þrjú ár er síða Procura enn þann dag í dag tekjulaus, enda ekkert gjald tekið fyrir þjónustuna. Að sögn G. Andra Bergmann, stofnanda Procura, er ekki stefnt að því að rukka fyrir verðmatið en honum finnst að þessar upplýsingar ættu að vera aðgengilegar öllum.

„Mín hugmyndafræði er sú að upplýsingar til almennings eiga að vera fríar og tekjumódelið á að byggja á einhverju öðru. Enn fremur tel ég að bisness sem gengur út á að selja almenningi upplýsingar muni aldrei ganga upp við hliðina á bisness sem gefur þær,“ segir G. Andri Bergmann.

Frekar mun tekjumódel síðunnar byggja á að seljendur, fremur en kaupendur, þurfi að greiða. Andri vill að í framtíðinni geti einstaklingar nálgast verðmat fasteigna, auk annarrar þjónustu sem þarf til þess að kaupa eða selja fasteign, allt á sama vefnum.

Fasteignasalar geta þá boðið sína þjónustu gegn föstu gjaldi og um leið myndast vettvangur þar sem fólk getur leitað tilboða að söluþóknun. „Því munu þeir borga sem veita þjónustuna, fremur en þeir sem eru að þiggja hana.“ Andri leggur áherslu á að vefurinn þurfi að vera einfaldur og að það muni skera úr um hver ber sigur úr bítum. „Sá aðili sem tekst að setja fram einfaldari leið en hinir mun vinna, ekki sá sem hefur meiri pening,“ segir G. Andri.

Fasteignasalar, bankar og lífeyrissjóðir meðal viðskiptavina

Ólíkt Procura hefur Two Birds tekjur af sinni starfsemi en greiða þarf 1.990 krónur fyrir hverja verðmatsskýrslu en einnig geta fyrirtæki verið í áskrift. Í skýrslunni fylgir áætlað markaðsverð ásamt verðbili sem byggir á raungögnum og markaðsgögnum sem gervigreind félagsins túlkar.

Ásamt því fylgir yfirlit af sambærilegum seldum eignum í nálægum radíus, hve lengi íbúðin var til sölu og fleiri hagnýtar upplýsingar. Að sögn Auðar Bjarkar Guðmundsdóttur, framkvæmdastjóra Two Birds, er verkefnið hluti af því að bæta vef Aurbjargar en sá vefur reynir að aðstoða fólk með fjármálin.

Auður segir skýrsluna hugsaða til einstaklinga en töluvert fleiri hafi þó verið að nýta sér þjónustuna. „Verðmatsskýrslan okkar er fyrst og fremst hugsuð til þess að hjálpa fólki sem er í fasteignahugleiðingum. Við höfum verið að selja virðismatið okkar til einstaklinga, meðal annars á Aurbjörg.is, en síðan eru fasteignasalar í áskrift hjá okkur auk samstarfs við banka og lífeyrissjóði.“

Aðspurð segir Auður kostnað verkefnisins talsverðan. Starfsemin er þó hluti af stærra batteríi og því ekki brýnt að það skili strax miklum hagnaði, en ekki liggur fyrir nákvæmur kostnaður á verkefninu.

„Það var búið að vinna í hugbúnaðinum okkar í nokkuð marga mánuði áður en við fórum að birta þetta. Að auki þurfum við að kaupa alla þinglýsta kaupsamninga til þess að bæta við í gagnasafnið okkar. Því er töluverður kostnaður sem hlýst af verðmatinu og því nauðsynlegt að gjald sé tekið fyrir þjónustuna,“ segir Auður Björk og bætir við að upplýsingarnar nýtist einnig í önnur verkefni félagsins.

Félag fasteignasala berst á móti

Að sögn G. Andra Bergmann sér Félag fasteignasala mikla ógn í því að almenningur nálgist upplýsingar annars staðar en hjá þeim. „Um leið og við erum farin að veita frítt verðmat þá er hagur einstaklinga að hafa samband við fasteignasala orðinn minni. Mikilvægi fasteignasala í svona viðskiptum er í dag, og mun verða í enn meira mæli fólginn í því að ganga frá pappírum.

Við höfum lent í gríðarlegum slag við Félag fasteignasala og í framhaldinu eftirlitsnefnd fasteignasala. Félagið skrifaði til allra löggiltra fasteignasala að þeir sem yrðu í samskiptum við mig eða í viðskiptum við Procura ættu á hættu að missa réttindin sín,“ segir G. Andri en hann fór með málið fyrir umboðsmann Alþingis og vann en því lauk árið 2018.

Að sögn G. Andra hefur eftirlitsnefndin sett fram beiðni til ráðherra um að breyta lögunum til að „lemja niður frumkvæði eins og Procura“. Auður Björk hefur aðra sögu að segja en hún segir samstarf við fasteignasala gott.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Stikkorð: Procura Two Birds