Dollar
Dollar
© Aðrir ljósmyndarar (VB MYND)
Eftir vel heppnaða útgáfu ríkissjóðs á skuldabréfi í dollurum í síðasta mánuði hafa líkur á neikvæðum áhrifum á gjaldeyrisflæði, og þar með gengi krónu vegna gjalddaga á erlendum lánum næstu árin, minnkað mikið og að öðru óbreyttu eru slík áhrif raunar afar ólíkleg.

Þetta segir í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka í dag. Skuldabréfaútgáfan nam 1 milljarði dala og tryggði endurfjármögnun þess hluta gjaldeyrisforða Seðlabankans sem fenginn hafði verið að láni með skuldabréfaútgáfum fyrir hrun. „Um er að ræða tvær skuldabréfaútgáfur í evrum, annars vegar bréf með gjalddaga í desember á þessu ári þar sem nú eru útistandandi 290 m. evra og hins vegar bréf með gjalddaga í apríl á næsta ári þar sem rúmlega 164 m. evra eru útistandandi. Miðað við stundargengi evru gagnvart dollar samsvara framangreindar upphæðir u.þ.b. 658 m. dollara, og framangreind dollaraútgáfa gerir því gott betur en duga fyrir gjalddögunum tveimur,“ segir greining.

„Í nýlegu vefriti fjármálaráðuneytisins, þar sem fjallað er um dollaraútgáfu ríkissjóðs, kemur fram að erlend fjármögnun ríkissjóðs á næstunni verði aðeins framkvæmd í þeim tilgangi að styrkja gjaldeyrisforða, og að næstu útgáfur ríkissjóðs í erlendum myntum muni hafa þann tilgang að endurfjármagna lán frá AGS, Norðurlöndunum og Póllandi. Lán AGS til Seðlabankans nema á heildina litið 2,1 mö. dollara, og verður síðasti hluti þeirra greiddur út eftir lokaendurskoðun áætlunar sjóðsins og íslenskra stjórnvalda í ágúst næstkomandi. AGS-lánin verða endurgreidd á árunum 2012 - 2016. Lánsloforð Norðurlandanna og Póllands námu upphaflega allt að þremur milljörðum dollara, en fram kom í riti fjármálaráðuneytisins, Stefna í lánamálum ríkisins 2011-2014, sem gefið var út í upphafi árs, að þá hefði um helmingur lánafyrirgreiðslu Norðurlandanna verið nýttur og um þriðjungur lánafyrirgreiðslu Póllands. Endurgreiðslur Norðurlandalánanna verða með jöfnum afborgunum á árunum 2014 - 2021. Hins vegar er heimilt að greiða fyrirfram inn á ofangreind lán, ef ríkissjóði býðst erlend fjármögnun með hagkvæmari hætti.

Endurfjármögnun erlendra skulda auðveldari

Af ofangreindu má ráða að íslensk stjórnvöld hafa talsvert svigrúm til þess að endurfjármagna þann hluta gjaldeyrisforðans sem fenginn er að láni á komandi árum. Mikilvægi útgáfunnar í júní felst ekki síst í því að með henni sýndu stjórnvöld fram á getu sína til þess að sækja erlent fjármagn á markaði frekar en til alþjóðastofnana og velviljaðra nágrannaþjóða. Það auðveldar öðrum innlendum aðilum, til að mynda orkufyrirtækjum og fjármálastofnunum, að sigla í kjölfarið og koma á eðlilegu sambandi við alþjóðlega fjármálamarkaði eftir þriggja ára einangrun. Síðast en ekki síst ætti útgáfan að færa mönnum heim sanninn um að ekki þarf eingöngu að treysta á afgang af vöru- og þjónustuviðskiptum við útlönd til þess að vega á móti öllu útflæði vegna bæði þáttatekjuhalla og gjalddaga erlendra lána á komandi misserum, en þess hefur nokkuð gætt undanfarið að ýmsir hafi einblínt á samanburð slíkra stærða og talið öll tormerki á að það dæmi gengi upp.“