Traust almennings til Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Framsóknarflokksins, hefur lækkað lítillega á milli ára. Að sama skapi hefur þeim fjölgað á milli ára sem segjast vantreysta Sigmundi Davíð.

Þetta sýnir ný könnun MMR á trausti almennings til forystufólks í stjórnmálum sem birt var í gær. Rétt er að taka fram fyrsta könnun MMR af þessu tagi var birt í desember 2008 en Sigmundur Davíð varð formaður Framsóknarflokksins í janúar 2009. Þá var gerð sérstök könnun um traustfylgi almennings til hans.

Rúmlega 17% aðspurðra segjast bera „frekar eða mjög mikið“ traust til Sigmundar Davíðs samkvæmt könnuninni og fjölgar þeim um tæp 2 prósentustig á milli ára. Hins vegar fjölgar þeim um rúm 2 prósentustigi sem segjast bera „frekar eða mjög lítið“ traust til hans og mælast nú rúm 54%. Þá hefur þeim fjölgað allverulega sem segjast bera lítið traust til Sigmundar Davíðs frá því að hann tók við sem formaður Framsóknarflokksins, eða um tæpa 29 prósentustig.

Traust til Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Framsóknarflokksins, skv. traustkönnunum MMR.
Traust til Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Framsóknarflokksins, skv. traustkönnunum MMR.
© vb.is (vb.is)

Á myndinni hér að ofan má sjá þróunina á trausti almennings til Sigmundar Davíðs frá því að hann tók við sem formaður Framsóknarflokksins. Til að byrja með fjölgaði þeim hratt sem sögðust bera lítið traust til hans en þeim fækkaði þó á ný á milli ára í sömu könnun í fyrra. Í janúar 2009 sögðust 23% aðspurðra treysta Sigmundi Davíð en þeir eru sem fyrr segir rúmlega 17% nú.

Búinn að endurheimta traust framsóknarmanna

Á myndinni hér að neðan má sjá þróun á trausti til Sigmundar Davíðs flokkað eftir stuðningi almennings við stjórnmálaflokka. Þar sést að traust til Sigmundar Davíðs meðal þeirra sem styðja Framsóknarflokkinn hefur aukist á ný en um 76% stuðningsmanna flokksins segjast bera traust til hans. Það virðist því sem svo að Sigmundur Davíð hafi að mestu náð sama fylgi og hann var með þegar hann tók við sem formaður flokksins eftir nokkra sveiflu á þeim tíma sem liðinn er.

Traust til Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Framsóknarflokksins, flokkað niður eftir stuðningi við stjórnmálaflokka skv. traustkönnunum MMR.
Traust til Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Framsóknarflokksins, flokkað niður eftir stuðningi við stjórnmálaflokka skv. traustkönnunum MMR.
© vb.is (vb.is)

Traust í garð Sigmundar Davíðs meðal stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins hefur aukist á sama tíma, úr rúmum 18% í tæp 28%.

Traust stuðningsmanna Samfylkingarinnar og Vinstri grænna til Sigmundar Davíðs hefur hinsvegar hríðlækkað á sama tíma. Enginn stuðningsmaður Samfylkingarinnar segist bera traust til Sigmundar Davíðs en um 6% stuðningsmanna Vinstri grænna segist bera traust til hans. Í hvoru tilfelli hefur traustfylgi Sigmundar Davíðs meðal stuðningsmanna ríkisstjórnarflokkanna lækkað um tæp 18% frá því í janúar 2009.