Afskriftaþörf næstu þriggja ára hjá Íbúðalánasjóði jókst um 8-13 milljarða króna þegar sjóðurinn reiknaði hana út og gæti orðið allt að 48 milljörðum króna. Frá þessu greinir Morgunblaðið en það mun hafa verið óvænt og mikil aukning vanskila sem olli þessari auknu afskriftaþörf og mun aukningin einkum hafa verið hjá hjá fyrirtækjum.

Þegar ÍLS gerir árið 2010 upp verða 33,4 milljarðar króna færðir á afskriftareikning og stafar það öðru fremur af því að sjóðurinn tekur þátt í aðgerðum til hjálpar skuldsettum heimilum. Gert er ráð fyrir að um 9 þúsund heimili muni njóta góðs af aðgerðinni og lækka skuldir þeirra að meðaltali um 2,4 milljónir króna.

Afskriftaþörf er reiknuð með reiknilíkani og er lykilforsenda útreikninganna hversu stór hluti útlána hefur verið í vanskilum í 90 daga eða meira. Árið 2010 jukust þessi útlán um samanlagt 25 milljarða sem skýrir aukna afskriftaþörf.

Haft er eftir Sigurði Erlingssyni, framkvæmdastjóra ÍLS, að þessi þörf muni þó vonandi minnka þegar áhrif víðtækra skuldalækkana í bankakerfinu fer að gæta. Þá muni fleiri geta staðið í skilum.