Bjartsýni greiningardeildar Glitnis á þróun Úrvalsvísitölunnar hefur aukist frá áramótum og spáir greiningardeildin nú 37% hækkun á árinu og að það sé svigrúm til að Úrvalavísitalan hækki um 17% til áramóta, miðað við síðasta dag fjórðungsins. Í afkomuspá frá því í byrjun árs spáði greiningardeildin 21% hækkun. Þetta kom fram á kynningarfundi sem haldinn var vegna afkomuspárinnar í dag.

"Góð arðsemi og stöðugur rekstur mun stuðla að hækkun á verði hlutabréfa á árinu. Greitt aðgengi að fjármagni mun einnig stuðla að góðri ávöxtun í ár. Á móti kemur að háir innlendir skammtímavextir draga úr áhuga fjárfesta," segir greiningardeildin.

Mælt er með kaupum á tveimur félögum: Actavis, sem er eina félagið sem er yfirvogað, og Kaupþingi, sem er markaðsvogað. Vogunarráðgjöfin segir til um hvaða bréf muni hækka mest á næstu þremur til sex mánuðum.

Fjármálafyrirtæki munu draga vagninn og keyra áfram hækkun Úrvalsvísitölunnar, enda skipa þau að langstærstum hluta vísitöluna. Greiningardeildin bendir á að fjármálafyrirtækin hafi verið gróflega vanmetin á undanförnum árum, sérstaklega vöxturinn, en einnig undirliggjandi arðsemi. "Verðmatslíkön sem ekki taka tillit til hugsanlegs ytri vaxtar henta ekki vel við þær aðstæður sem hér hafa verið uppi. Þá hefur innri vöxtur verið langt yfir væntu langtímameðaltali ár eftir ár. Vöxtur undangenginna ára segir nokkuð til um stefnu þessara félaga og þá í leiðinni hvers má vænta af þeim í framtíðinni," segir greiningardeildin