Verslunarkeðjan House of Fraser sem Baugur Group á 10% hlut í hefur sent tilkynningu til Kauphallarinnar í London þar sem kemur fram að félagið býst við viðundandi árangri á fyrri hluta yfirstandandi rekstrarárs. Sala, búð fyrir búð, jókst um 0,4% á fyrstu 19 vikum rekstrarársins og hefur heildarframlegð félagsins aukist um 0,7 prósentustig miðað við síðasta tólf mánaða tímabil.

House of Fraser hefur stöðugt verið til umfjöllunar í fjölmiðlum í Bretlandi varðandi hugsanlega yfirtöku í kjölfar þess að keppinautar félagsins sbr. Selfridges, Debenhams og Allders hafa allir verið yfirteknir á undanförnum misserum. Bréf í félaginu hafa hækkað um fjórðung í verði frá byrjun almanaksársins en félagið hefur staðið fyrir opnun nýrra búða, lækkun kostnaðar og söluaukandi aðgerðum með tilkomu nýs viðskiptakorts. Fyrirtækið á og rekur um 50 stórverslanir í helstu borgum Bretlands.