Hlutabréf í Icelandair hafa hækkað um 27% í 142 milljóna króna viðskiptum frá því að markaðir opnuðu í dag. Þegar þetta er skrifað standa bréf Icelandair í 1,14 krónum. Hlutabréf allra kauphallarfyrirtækjanna hafa hækkað um meira en eitt prósent. Úrvalsvísitalan (OMXI10) hefur hækkað um rúmlega fjögur prósent. Hún hefur aldrei verið hærri og stendur í um 2.350 stigum.

Næst mest hafa hlutabréf Reita hafa hækkað eða um 13% í 223 milljóna króna viðskiptum. Hlutabréf Eikar hafa hækkað um rúmlega tíu prósent og hlutabréf Reita um 9,3%. Fjórða mesta hækkunin, þegar þetta er skrifað, er á bréfum Icelandic Seafood sem hafa hækkað um 8,4%. Heildarvelta nemur 3,2 milljörðum króna í um 402 viðskiptum.

Ein möguleg skýring á fyrrnefndri hækkun má rekja til þess að bóluefni lyfjarisans Pfizer sýnir 90% virkni. Um er að ræða meiri árangur en áður hafði verið gert ráð fyrir. Til þess að bóluefni uppfylli skilyrði stjórnvalda víða um heim var lágmarkið sett í 50% virkni. Hlutabréf Pfizer hafa hækkað um fjórtán prósent fyrir opnun markaða og bréf BioNTech, sem vinnur einnig að téðu bóluefni, hafa hækkað um fjórðung.

Minnsta hafa hlutabréf Brims hækkað eða um 1,11%, næst minnst hlutabréf VÍS um 1,25% og þriðja minnsta hækkunin hefur verið á hlutabréfum Haga eða um 1,29%.

Hlutabréf Skeljungs höfðu hækkað talsvert áður. Þrjú félög, sem eiga ríflega 36% hlut í Skeljungi, höfðu boðað yfirtökutilboð í Skeljungi sem var 6,6% yfir lokagengi síðasta viðskiptadags. Yfirtökutilboðið er á genginu 8,315 krónur en hlutabréf Skeljungs þegar þetta er skrifað standa í 8,32 krónum.