Velta dagvöruverslunar jókst um 13% í september samanborið við sama mánuð í fyrra, samkvæmt mælingum Rannsóknarseturs verslunarinnar.

Í frétt setursins segir að á hlaupandi verðlagi hafi hækkunin verið 9,8% á milli ára. Sala á áfengi í september var 18,5% meiri í ár en í fyrra og velta lyfjaverslana 8,1% meiri, á föstu verðlagi. Á hlaupandi verðlagi var hækkunin 18,9% í áfengi og 7,9% í lyfsölu. Síðastliðið ár hefur verð dagvöru lækkað um 2,8% á meðan verðlag á áfengi og í lyfjaverslunum hefur því sem næst staðið í stað.

"Síðustu tölur fyrir septembermánuð sýna mikla veltuaukning á milli ára, bæði ef litið er á veltu á föstu eða hlaupandi verðlagi. Að hluta til skýrist þessa mikla hækkun af því að í ár voru fimm föstudagar í septembermánuði en aðeins fjórir í fyrra. Þessi dagatalsáhrif eru mest áberandi í áfengisverslun," segir í fréttinni.