Það er sannkölluð gósentíð hjá fyrirtækinu Atlas Survival Shelters, sem framleiðir loftvarnarbyrgi í Bandaríkjunum og sendir þau til viðskiptavina sinna um allan heim. Samkvæmt frétt Bloomberg hefur sala gengið mjög vel á BombNado birgjunum sem kosta um 19.000 dollara.

Samkvæmt fréttinni þarf aukin eftirspurn ekki að koma mikið á óvart miðað við stöðu heimsmála og þá sérstaklega vegna eldflaugatilrauna Norður-Kóreu. Á laugardaginn var greindi Kim Jong Un, leiðtogi Norður-Kóreu frá því að eldflaugar landsins væru orðnar það langdrægar að Bandaríkin séu orðin raunverulegt skotmark.

Það er þó ekki í Bandaríkjunum sem eftirspurn eftir vörum Atlas Survival hefur verið mest heldur í Japan, enda eru einungis 1285 kílómetrar frá Pyongyang til Tokyo. „Eftirspurnin hefur verið nánast stjórnlaus í Japan," segir Ron Hubbard, eigandi Atlas Survival.

Líkt og hjá Atlas Survival hefur sala hjá bandaríska loftvarnarbyrgjaframleiðandanum, Rising S Co aukist gífurlega. Samkvæmt Gary Lynch, forstjóra fyrirtækisins, hafa fyrirspurnir um loftvarnarbyrgi tvöfaldast á síðustu þremur vikum og hafa um 80% þeirra komið frá Japan.