Eftirspurn eftir lífeyrissjóðslánum hefur aukist undanfarið og hefur sú þróun átt sér stað frá 2007. Hjá Almenna lífeyrissjóðnum hefur eftirspurnin aukist það mikið að afgreiðsla lána tekur nú allt upp í 10 daga, en almennt hefur verið reynt að afgreiða lán á 3 - 5 dögum.

Gunnar Baldvinsson, framkvæmdastjóri Almenna lífeyrissjóðsins, segir ástæðuna vera þá að lánakjör lífeyrissjóðanna hafi lítið breyst. Aðstæður á lánamarkaði ráði þarna mestu og Gunnar segir að fólk taki nú frekar lán hjá lífeyrissjóðum en bönkum.

Þær upplýsingar fengust hjá Lífeyrissjóði verzlunarmanna að lánabeiðnum sjóðsfélaga hefði fjölgað og þar með hefði eftirspurn eftir lánum farið hægt vaxandi á liðnum mánuðum.

Guðmundur Þ. Þórhallsson, forstöðumaður eignastýringar Lífeyrissjóðs verzlunarmanna, telur ástæðuna vera aukna tregðu bankanna til fasteignaveðlána. Þá tregðu megi rekja til erfiðleika á fasteignamarkaði í Bandaríkjunum og þess lausafjárskorts sem fylgdi í kjölfarið.

Guðmundur segir að biðtími eftir lánum hjá Lífeyrissjóði verzlunarmanna sé hverfandi og hann hafi ekkert breyst þrátt fyrir aukna eftirspurn.

Ekki hafa þó allir lífeyrissjóðir fundið fyrir þessari aukningu. Hjá Frjálsa lífeyrissjóðnum hefur eftirspurn eftir lífeyrissjóðslánum haldist nokkuð stöðug og finna menn ekki fyrir teljandi aukningu á umsóknum, að sögn Arnaldar Loftssonar, framkvæmdastjóra lífeyrissjóðsins.