Aukin eftirspurn er nú eftir símum sem ekki er hægt að hlera og búnaði sem kemur í veg fyrir hlerun, segir framkvæmdastjóriEff ehf., en fyrirtækið hefur boðið upp á slíkar vörur í tæpt ár og nýtur nú hinnar miklu umræðu um hleranir hér á landi.

Friðbert Pálsson, framkvæmdasjóri Eff ehf., segir að fólk vilji auðvitað koma í veg fyrir að það sé hlerað, hvort sem það eru opinberir aðilar eða einkaaðilar.

"Auðvelt er að nálgast hlerunarbúnað fyrir farsíma. Hann er til dæmis seldur í Austur Evrópu og kostar um 30-50 þúsund dollara. Hleranir á fastlínu eru mjög auðveldar. Þær eru hægt að framkvæma í gegnum tengikassa á götunum eða símainntök fyrirtækja," segir Friðbert.

"Hleranir eru orðnar stórt vandamál í viðskiptaheiminum. Komin er upp atvinnugrein fólks sem hlerar síma og selur síðan bitastæðar upplýsingar. Ef stoppað er fyrir utan skrifstofu er hægt að beina hlerunarbúnaði að henni og hlera þá farsíma sem þar eru. Síðan er hægt að vinna úr þeim upplýsingunum sem fást. Sem dæmi má nefna að starfsmenn á flugvellinum í Ósló voru teknir fyrir að hlera síma fólks í flugstöðinni, vinna úr upplýsingunum og selja þær," segir Friðbert.

Eff ehf. selur búnað til að koma í veg fyrir hlerun á 70-150 þúsund krónur. Um er að ræða farsíma sem ekki er hægt að hlera annars vegar og búnað sem kemur í veg fyrir hlerun í hvoru tveggja farsímum og fastlínusímum hins vegar. Hægt er að eiga örugg samskipti ef þeir sem tala saman í síma eru báðir með búnaðinn.