Talsmenn bæði Haga, sem reka Hagkaup og Bónus, og Festi, sem reka m.a. Krónuna, segjast finna fyrir mikilli söluaukningu í svokölluðum Vegan-vöruflokki. Er þar um að ræða matvöru sem innihalda engar dýraafurðir og henta því sérstaklega fólki sem aðhyllist svokallaðan veganlífstíl.

Talsmaður Haga sagði fyrirtækið hafa þrefaldað vöruúrval sitt á slíkum vörum á mjög stuttum tíma með það fyrir augum að mæta aukinni eftirspurn.

Talsmaður Festi segist einnig finna fyrir mikilli eftirspurn en sem dæmi hefur mánaðarleg sala í jurta- og hafradrykkjum ríflega tvöfaldast frá síðasta ári.  Þá eru vörur eins og t.d. Oatly, Oumph!, Jack Fruit og Sheese, sérstaklega vinsælar um þessar mundir.