Miklar sveiflur á fjármálamörkuðum og lækkun á gengi krónunnar undanfarna daga hafa einnig sett mark sitt á íslenskan skuldabréfamarkað. Mikil lækkun á gengi krónunnar eykur verðbólguvæntingar og þar með eftirspurn eftir íbúðabréfum sem eru verðtryggð.

Þetta kemur fram í Morgunkorni Glitnis í morgun.

Þar kemur fram að ávöxtunarkrafa íbúðabréfa hefur lækkað um 13-37 punkta í þessari viku, aðallega á mánudaginn og í gær.

„Ekki er heldur loku fyrir það skotið að aukna eftirspurn eftir íbúðabréfum megi skýra með flótta yfir í öruggari verðbréf á þessum óvissutímum,“ segir Greining Glitnis í Morgunkorni.

Þá kemur fram að krafa lengstu þriggja flokka ríkisbréfa hefur hækkað um nálægt 10 punkta í vikunni en krafa tveggja stystu flokka hefur sveiflast í sitt hvora áttina.

Á meðan krafa RIKB 08 1212 hefur hækkað um hátt í 100 punkta hefur krafa RIKB 09 0612 lækkað um 43 punkta. Sú kröfulækkun er þó líkleg til að ganga til baka í aðdraganda útboðs í flokkinn sem fram fer eftir viku. Verðbólguálag á skuldabréfamarkaði hefur því aukist

Greining Glitnis segir verulega óvissu nú vera um hvert gengi krónu stefnir á komandi vikum þar sem áhættufælni hefur stóraukist í kjölfar ótíðinda vestan hafs.

„Haldist krónan á núverandi slóðum eða veikist frekar þýðir það að öllum líkindum að toppur verðbólgukúfsins er ekki að baki eins og við höfum talið líklegt og að hann mun koma fram á 4. ársfjórðungi þessa árs. Á meðan slík þróun er í kortunum má ætla að krafa íbúðabréfa haldist áfram lág og að fjárfestar verði nokkuð rólegir með fjármagn sitt í íbúðabréfum,“ segir Greining Glitnis í Morgunkorni í dag.