Bæði Skjárinn og 365 merkja aukna eftirspurn eftir þjónustu sinni þrátt fyrir að sjötti hver Íslendingur hafi aðgang að Netflix á sínu heimili. Þetta fullyrða Friðrik Friðriksson, framkvæmdastjóri Skjásins, og Ari Edwald, forstjóri 365, í samtali við Viðskiptablaðið. Greint var frá aukinni aðsókn Íslendinga í þjónustu Netflix í þarsíðustu viku þótt hún standi ekki formlega til boða hér á landi en hægt er að nálgast hana með hjáleið í gegnum erlenda IP tölu.

Fjölgun áskrifenda töluverð

Friðrik segir að áskrifendum Skjás eins hafi fjölgað úr 20.000 í 23.000 á stuttum tíma en fyrirtækið stóð undir áskriftarherferð nýlega í tengslum við íslenska útgáfu af sjónvarpsþættinum Biggest Loser. „Í stuttu máli sagt þá höfum við ekki fundið fyrir minnkandi eftirspurn. Við höfum líka ekki setið aðgerðarlaus heldur höfum við tekið af skarið með nýjungar í þjónustu Skjás eins sem tengist þessum VOD (Video on Demand) hluta sem svipar til þess sem Netflix býður upp á.

Þar má nefna að heilu þáttaraðirnar eru fáanlegar í gegnum Skjáinn auk þess sem við opnuðum Skjá krakka sem er sambærileg þjónusta og Netflix er með nema eingöngu með barnaefni.“ Ari tekur í sama streng og þótt hann vilji ekki gefa upp áskriftartölur fullyrðir hann að áskrifendum hafi fjölgað upp á síðkastið.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér .