Í kjölfar hagstæðari leiða til íbúðafjármögnunar sem nú bjóðast einstaklingum er fyrirsjánlegt að fasteignamarkaðurinn muni hitna enn frekar á næstu misserum segir í Hálffimm fréttum KB banka. Þar segir ennfremur að jafnframt sé möguleiki á aukinni einkaneyslu þar sem nýju íbúðalánin kveða ekki á um að verja þurfi fénu til íbúðarkaupa sérstaklega. Ennfremur er líklegt að fjöldi einstaklinga nýti tækifærið sem nú gefst til að endurfjármagna íbúðarlán sín á lægri vöxtum en áður hafa boðist.

Í Hálffimm fréttum segir að spurn eftir bifreiðum og varanlegum neysluvörum sé farin að mettast þar sem t.a.m. innflutningur bifreiða og varanlegra neysluvara er búinn að aukast samfleytt frá byrjun árs 2003. Ennfremur var kreditkortavelta einstaklinga um 11 mö.kr. meiri á fyrri helminig þessa árs miðað við sama tíma í fyrra, þar af um 8 mö. kr. meiri innanlands og 3 mö. kr. meiri á erlendri grundu.