Erlend hlutabréfakaup innlendra aðila námu 7,7 ma.kr. í október og eru um 2,4 ma. kr. minni en á sama tíma í fyrra. Þetta þýðir að frá áramótum hafa hrein erlend verðbréfakaup numið samtals 56,8 mö. kr. samanborið við 33 ma. kr. á sama tíma í fyrra, en aukningin er því um 70%. "Veruleg aukning átti sér stað á fyrsta fjórðungi ársins og er líklegt að erlend verðbréfakaup hafi átt einhvern þátt í veikingu krónunnar á þeim tíma. Hins vegar dró verulega úr erlendum verðbréfakaupum á öðrum fjórðungi, sem kann m.a. að hafa átt þátt í því að aukinn viðskiptahalli hafi ekki bitið á gengi krónunnar," segir í Hálffimm fréttum KB banka.

Þar er bent á að svo virðist sem hátt gengi krónunnar hafi hvatt til aukinna fjárfestinga á erlendri grundu í október, en lækkun hlutabréfamarkaðarins fyrir stuttu gæti einnig hafa lagt sín lóð á vogarskálarnar í þeim efnum.