Frá því að íslenska bankakerfið hrundi til grunna í þriðja stærsta gjald­ þroti sögunnar á haustdögum árið 2008 hafa átt sér stað miklar breytingar á íslenska fjármálakerfinu. Ýmislegt hefur áunnist og stendur fjármálakerfið um margt á traustari stoðum heldur en fyrir áratug. Aftur á móti hafa samkeppnisaðstæður farið versnandi í fjármálakerfinu, með samþjöppun fjármálafyrirtækja og minnkandi samkeppni á flestum sviðum fjármála­ þjónustu.

Fjármagnskerfi virka sem stuðningsfyrirbæri við framleiðni, hagvöxt og efnahagslega velferð með því að annast margvíslega þjónustu, svo sem miðlun fjármagns, umsýslu fjármuna, greiðslumiðlun, tryggingar og verðbréfaþjónustu. Með samþjöppun fjármálafyrirtækja minnkar samkeppni og þar með skapast hætta á hærra verði til neytenda fyrir lakari þjónustu.

Á Íslandi eru augljósustu dæmin um fákeppni og samþjöppun í viðskiptabankaþjónustu og á tryggingamarkaði. Sjaldan hefur ríkt jafn mikil fákeppni og nú í fjármálakerfinu, en framundan eru tækifæri til að auka markaðsaðhald á fjármálamörkuðum og stuðla að fjölbreyttara eignarhaldi fjármálafyrirtækja.

Helmingslækkun í fjölda fyrirtækja

Frá hruni hefur fjármálakerfið minnkað talsvert. Í lok júní árið 2016 nam virði heildareigna í fjármálakerfinu 9.098 millj­ örðum króna. Nákvæmlega átta árum áður var stærð kerfisins rúmlega 17 þúsund milljarðar að nafnvirði eða 24,3 þúsund milljarðar á verðlagi ársins 2016. Landsframleiðsla hefur vaxið hlutfallslega hraðar heldur en heildareignir fjármálakerfisins, sem hafa verið tiltölulega stöð­ ugar frá árinu 2010. Sem hlutfall af vergri landsframleiðslu hefur fjármálakerfið minnkað úr um 11-faldri landsframleiðslu í lok júní árið 2008 í fjórfalda landsframleiðslu átta árum síðar.

Fjármálakerfið hefur einnig minnkað þegar litið er til fjölda fjármálafyrirtækja og mannafla. Fjöldi fjármálafyrirtækja undir eftirliti Fjármálaeftirlitsins (FME), án verðbréfasjóða, var 164 árið 2000, 119 árið 2007 og stendur nú í 106. Starfsmannafjölda í fjármálakerfinu í aðalstörfum hefur fækkað um þriðjung, eða úr 9 þúsund árið 2008 í um 6.300 árið 2015. Gera má ráð fyrir því að starfsmannafjöldinn hafi haldið áfram að lækka árið 2016 eftir hópuppsagnir í stóru viðskiptabönkunum þremur. Starfsmannafjöldinn er nú svipaður og hann var árið 2003.

Þegar horft er á framboð á viðskiptabankaþjónustu til einstaklinga og minni fyrirtækja hefur keppinautum fækkað á liðnum árum. Þannig hefur sparisjóðum fækkað úr 25 árið 2000 í aðeins fjóra árið 2016, á sama tíma og fjöldi við­ skiptabanka hefur nær staðið í stað við fjóra. Margir þeirra hafa horfið af markaðnum eða runnið saman við við­ skiptabankana þrjá.

Á sama tímabili hefur lífeyrissjóðum fækkað úr 57 í 25 og hafa þeir margir sameinast. Sérhæfðari lánafyrirtækjum hefur fækkað úr 12 árið 2007 í fimm árið 2016, vátryggingamiðlurum hefur fækkað um helming úr 18 og innlánsdeildum samvinnufélaga hefur fækkað úr 10 í eina. Vátryggingafélög voru 18 árið 2000 en hafa haldist í kringum 12 allt frá árunum 2005-2006. Aftur á móti hefur verðbréfafyrirtækjum og rekstrarfélögum verðbréfasjóða fjölgað. Vægi ólíkrar fjármálaþjónustu hefur einnig breyst.

Á flestum sviðum fjármála­ þjónustu hér á landi ríkir fákeppni og skýr þróun hefur átt sér stað í átt að aukinni sam­ þjöppun. Á mælikvarða Herfindahl-Hirschman samþjöppunarstuðulsins, sem tekur mið af fjölda fyrirtækja á markaði auk markaðshlutdeildar hvers fyrirtækis, mælist samþjöppun í innlánum um 3.060 stig, en markaður telst mjög samþjappaður ef stuðullinn fer yfir 1.800 stig. Innlánsstofnanir eru um 35% af fjármálakerfinu sé litið til heildareigna, borið saman við 73% árið 2007, en samþjöppun í innlánum getur virkað sem nálgun fyrir samþjöppun í fjármálakerfinu.

Fákeppni og sam­ þjöppun í fjármálaþjónustu er einna mest áberandi á bankamarkaði og tryggingamarkaði. Á bankamarkaði hafa þrír kerfislega mikilvægir bankar 95% markaðshlutdeild í innlánum. Ein birtingarmynd þeirrar fákeppni sem ríkir á bankamarkaði er sá mikli kostnaður og fyrirhöfn sem því fylgir fyrir viðskiptavini að skipta um banka, sem dregur úr aðhaldi og valfrelsi þeirra til þjónustu.

Á vátryggingamarkaði hafa þrjú skaðatryggingafélög um 90% markaðshlutdeild. Ólíkt bankamarkaði eru þó smærri félög á tryggingamarkaði sem veita stærstu félögunum samkeppnisaðhald og einnig hefur fjöldi erlendra vátryggingafélaga heimild til að veita hér þjónustu.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .