Mark Zuckerberg, stofnandi og forstjóri Facebook, hefur gefið til kynna að vinnuumhverfi starfsmanna tæknirisans muni á næsta áratug færast í auknum mæli í átt að fjarvinnu og allt að helmingur þeirra gæti unnið að heiman á innan við áratug. WSJ greinir frá.

Breytingarnar munu í fyrstu einungis ná til verkfræðinga fyrirtækisins sem starfa í Bandaríkjunum. Starfsmenn Facebook geta þó sótt um að vinna að heiman með samþykki yfirmanna.

Zuckerberg áætlar að meira en 45.000 manns innan fyrirtækisins munu vinna að heiman á innan við tíu árum. Hann tók þó fram að þróunin í átt að aukinni fjarvinnu muni gerast í þrepum, þar sem hún krefst nýrrar tækni til að bæta upp fyrir samskipti á staðnum.

„Þetta snýst um hvernig við getum unnið betur og sótt í hæfasta fólkið,“ sagði Zuckerberg í ávarpi til starfsmanna í gær. Hann tók jafnframt fram að geta Facebook til að halda starfsemi gangandi þrátt fyrir miklar hömlur af völdum heimsfaraldursins gaf honum trú á aukinni fjarvinnu innan fyrirtækisins.

Forstjórar annarra stórra tæknifyrirtækja hafa tilkynnt á síðustu mánuðum um aukið frelsi starfsmanna til að vinna að heiman. Þar á meðal var Jac Dorsey, forstjóra Twitter, sem tjáði starfsfólki sínu að það geti unnið að heiman til frambúðar.

Evan Spiegel, forstjóri Snap Inc. sem rekur forritið Snapchat, sagði í spaugi við samstarfsmenn að hann ætli að starfa varanlega að heiman þar sem hann er framleiðnari og einbeittari þegar hann er í kringum fjölskyldu sína. Hann hefur kallað hugmyndina um fjarvinnu lykilstarfsmanna til frambúðar dystópíska.