*

þriðjudagur, 9. mars 2021
Erlent 11. janúar 2021 15:29

Stóraukin framleiðsla Pfizer bóluefnis

BioNTech sér fram á að geta framleitt 2 milljarða skammta á árinu í stað fyrri skuldbindingar um milljarð skammta.

Ritstjórn
Ekki er vitað hvort framleiðsluaukning hraði bólusetningu hér á landi, en það er óskandi.
epa

BioNtech tilkynnti í dag um að stefnt væri að því að framleiða tvo milljarða skammta af bóluefninu sem fyrirtækið hefur þróað í samstarfi við Pfizer.

BioNtech og Pfizer hafa skuldbundið sig til að afhenda einn milljarð skammta á árinu en sjá nú fram á að geta framleitt tvöfalt það magn fyrir árslok. Byggir aukningin á stöðugum ferlaumbótum og viðbótum við framleiðsluaðstöðu, en hún sé jafnframt háð því að fjölga birgjum og verktökum sem starfa við framleiðsluna.

Áætlað er að ný framleiðslueining í Marburg í Þýskalandi verði tekin í notkun í febrúar, en framleiðslugeta hennar mun verða um 750 milljónir skammta á ári. Að henni meðtaldri hafa fyrirtækin tvö yfir að ráða sex framleiðslueiningum, þremur í Bandaríkjunum og þremur í Evrópu. Þar fyrir utan er gert ráð fyrir að samningar við ytri aðila um framleiðslu og pökkun auki framleiðslugetu.

Fyrirtækin boða einnig að bóluefnið verði útvíkkað til þungaðra kvenna og fleiri hópa sem bóluefnið nýtist ekki að svo stöddu.

Hlutabréfaverð í BioNTech hafa hækkað um tæp 5% á markaði það sem af er degi en gengi bréfa félagsins hefur hækkað um yfir 150% það sem af er ári.

Líkt og alkunna er binda íslendingar miklar vonir við að bólusetning þjóðarinnar gangi hraðar fyrir sig en útlit er fyrir miðað við núverandi stöðu en ekki er vitað hvort aukin framleiðsla BioNTech komi til með að flýta gangi mála hér á landi.