Heilbrigðisráðherra telur rök standa til þess að auka fjármagn til reksturs hjúkrunarheimila á þessu ári. Viðræður standa yfir um gerð þjónustusamninga við rekstaraðila hjúkrunarheimila sem rekin eru á daggjöldum. Ríkissstjórnin samþykkti í dag að fela ráðherrum heilbrigðis- og fjármála að ræða við aðilana um mögulega styrkingu á rekstrargrunni heimilanna. Kemur þetta fram í frétt á vefsíðu heilbrigðisráðuneytisins.

Samkvæmt skýrslu sem Ríkisendurskoðun skilaði Alþingi í nóvember 2014 um rekstur og afkomu hjúkrunarheimila árið 2013 nam samanlagður halli hjúkrunarheimila 4,66% að jafnaði þrátt fyrir að þriðjungur heimilanna skilaði jákvæðum rekstri.

Í fréttinni segir að ekki sé ljóst hvað valdi breytilegri rekstarafkomu og að hvorki stærð heimilanna né hjúkrunarþyngd íbúa á heimilunum virðist vera fullnægjandi skýring. Það liggi þó fyrir að breyting sem gerð var á fyrirkomulagi mats á þörf fólks fyrir búsetu á hjúkrunarheimili árið 2008, samhliða hlutfallslegri fjölgun aldraðra, hafi leitt til þess að þeir sem fara inn á hjúkrunarheimili séu mun veikari en áður var og hjúkrunarþyngd íbúanna mælist að meðaltali töluvert hærri en áður.