Framlög úr ríkissjóði til ýmiss konar lista aukast um 280,4 milljónir, eða 7,3%, á milli ára samkvæmt fjárlagafrumvarpi 2015. Útgjöld úr ríkissjóði vegna Íslenska dansflokksins hækka um 4,8 milljónir á milli ára. Þjóðleikhúsið fær 50,9 milljónum meira en á fyrra ári og Sinfóníuhljómsveitin 57,6 milljónir til viðbótar. Framlög til listamannalauna hækka um 2,4 milljónir og Kvikmyndamiðstöð Íslands fær 100,6 milljónir til viðbótar við framlög fyrra árs.

Útgjöld vegna ýmissa lista verða aukin um 64,1 milljón króna, og tvö ný verkefni eru undir þeim fjárlagalið. Það eru útflutningssjóður íslenskrar tónlistar og myndlistarsjóður sem fá fjárveitingu sem nemur 35 milljónum í heildina. Þá aukast framlög til Íslensku óperunnar um 20 milljónir á milli ára. Heildarútgjöld ríkissjóðs vegna þessara málaflokka verða 4,1 milljarður miðað við fjárlagafrumvarp.