Íslenski hlutabréfamarkaðurinn hreyfist sífellt meira í takt við erlenda markaði, einkum þann evrópska. Sé litið á árið 2015 í heild sinni var fylgni dagsbreytinga á íslensku vísitölunni og þeirri evrópsku aðeins 0,03, en mest getur fylgnin verið 1. Það sem af er þessu ári hefur fylgni dagsbreytinga á vísitölunum tveimur verið 0,39. Til samanburðar má nefna að á sama tímabili var fylgni dagsbreytinga Euro Stoxx 50 vísitölunnar og bandarísku S&P 500 vísitölunnar um 0,65.

Jóhann Gísli Jóhannesson, sjóðsstjóri hjá GAMMA, segir aukna fylgni íslenska markaðarins við erlenda markaði vera áhugaverða þróun. Hana ætti að túlka sem heilbrigðismerki fyrir íslenska markaðinn, enda sé hagkerfi Íslands mjög tengt stöðu efnahagsmála í okkar helstu viðskiptalöndum og því eðlilegt að staða mála þar hafi áhrif hér á landi.

Bera saman innlenda og erlenda kosti

Jóhann Gísli segir að erfitt sé að segja nákvæmlega til um hver ástæða aukinnar fylgni sé. Hann segir þó að væntanlega séu fjárfestar farnir að horfa meira út þegar þeir skoða fjárfestingarkosti og bera saman erlenda og innlenda kosti þegar farið er að glitta í endalok gjaldeyrishafta. „Auk þess eru lífeyrissjóðir þegar búnir að fá heimildir til að fjárfesta erlendis á ný og því væntanlega meira að fylgjast með erlendum mörkuðum,“ segir hann.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .