Búferlaflutningar
Búferlaflutningar

Stækka má myndina með því að smella á hana.

Mikið atvinnuleysi og lélegt samkeppnishæfi Íslands eykur hættuna á spekileka, þ.e. að hæfileikaríkir einstaklingar flytjist af landi brott í leit að betri tækifærum og/eða lífskjörum. Samkvæmt skýrslu IMD, viðskiptaháskólans í Sviss, hefur hætta á spekileka (e. brain drain) aukist verulega á milli ára hérlendis. Hrapar Ísland um 25 sæti þegar kemur að hættu á brottflutningi rannsóknar- og þróunarstarfs.

Meginástæða spekileka er atvinnuleysi, sem nú er í hæstu hæðum, auk þess sem samkeppnishæfi landsins hefur ekki verið minni um langa hríð. Nú flytjast tækniog iðnaðarmenn af landi brott, stór nýsköpunarfyrirtæki flytja starfsemi sína í auknum mæli úr landi og aðeins þriðjungur læknanema sem stundar nám erlendis hyggst snúa aftur heim. Því eru hættumerki um brotthvarf snjallra menntamanna til staðar. Þetta kemur fram á vefsíðu Viðskiptaráðs Íslands (VÍ).

Samkvæmt Hagstofu var fjöldi brottfluttra íslenskra ríkisborgara nokkuð stöðugur á árunum 1995-2008, frá 2.679 upp í 3.566 manns. Í kjölfar bankahruns jókst atvinnuleysi mikið á Íslandi og fjöldi brottfluttra jókst. Árið 2009 fluttust 4.851 íslenskir ríkisborgarar héðan sem er mesti fjöldi brottfluttra frá því Hagstofan hóf mælingar árið 1986. Árið 2010 var fjöldinn ívið minni, 4.340 manns. Aðflutningur íslenskra ríkisborgara hefur verið á bilinu 1.929 upp í 3.228 manns á tímabilinu 1995- 2010 og flestir fluttust hingað árið 2007.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.