Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra segir að stefnumótun í heilbrigðismálum Íslendinga hafi of mikið tekið mið af kjörtímabilum, en mikilvægt væri að móta stefnu til lengri tíma. Þetta kom fram í máli Kristjáns á fundi um framtíðarskipan heilbrigðismála á vegum Viðskiptaráðs Íslands.

Björn Zoëga, formaður verkefnastjórnar um betri heilbrigðisþjónustu, tók undir með Kristjáni en nefndi að brýnt væri að auka hagkvæmni í heilbrigðiskerfinu, þar sem þyrfti að huga að breyttri forgangsröðun og framleiðnitengja fjármögnun í málaflokknum.

Undir þetta tók Hreggviður Jónsson, formaður Viðskiptaráðs, sem benti á að útgjöld til heilbrigðisþjónustu myndu vaxa ríflega þrefalt hraðar á næstu 30 árum borið saman við síðastliðin 30 ár vegna öldrunar þjóðarinnar. Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, tók í pallborðsumræðum undir að hagræðing væri mikilvæg en ekki þyrfti síður að huga að lýðheilsu og forvörnum til að forðast kostnaðarsöm meðferðarúrræði síðar meir.