Í kjölfar fjármálakreppunnar 2008 tók svokölluð eymdarvísitala að hækka hratt á Íslandi og náði hámarki í byrjun árs 2009. Síðan þá hefur leiðin legið niður á við og hefur eymdin ekki mælst minni frá árinu 2007.

Í markaðspunktum greiningardeildar Arion banka í dag er fjallað um svokallaða eymdarvísitölu. Hún kom fyrst fram á sjónarsviðið á áttunda áratug síðustu aldar og er tilgangur með vísitölunni að meta hvernig hinn hefðbundni borgari hefur það hagfræðilega séð. Vísitalan er fundin með því að leggja saman atvinnuleysi og verðbólgu á hverjum tíma, en báðar stærðirnar eru mikilvægir áhrifaþættir í lífi launþega.

Einnig er hægt að mæla eymdarvísitöluna með því að leggja saman verðbólgu, atvinnuleysi og stýrivexti og draga frá raunbreytingu á vergri landsframleiðslu á mann. Ef stuðst er við slíkt tilbrigði af vísitölunni þá hefur eymd á Íslandi aukist á þessu ári. Samkvæmt greiningardeildinni felst ástæðan í samdrætti í vergri landsframleiðslu á mann á fyrsta fjórðungi ársins. Ef Ísland er borið saman við önnur lönd innan OECD kemur í ljós að Ísland er yfir meðallagi þegar kemur að eymd á síðasta ári og felst skýringin í háum stýrivöxtum miðað við önnur ríki.