*

mánudagur, 6. júlí 2020
Innlent 20. júlí 2018 11:02

Aukin hlutur ferðaþjónustunnar ekki óvæntur

Aukin hlutur ferðaþjónustunnar í landsframleiðslu milli áranna 2016 og 2017, kemur Jóhannesi Þór Skúlasyni, framkvæmdastjóra SAF, ekki á óvart.

Ritstjórn
Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri SAF.
Aðsend mynd

Eins og Viðskiptablaðið greindi frá fyrr í dag, þá jókst hlutur ferðaþjónustunnar í landsframleiðslu milli áranna 2016 og 2017. Árið 2016 nam hluturinn 8,1% en árið 2017 fór hann upp í 8,6%.

Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, segir að þessar fréttir komi aðilum í ferðaþjónustunni ekki á óvart. „Það kemur okkur í ferðaþjónustunni ekkert sérstaklega á óvart að hlutur ferðþjónustu í landsframleiðslu hafi hækkað milli ára. Við höfum séð það á síðustu árum að hlutur ferðaþjónustunnar hefur farið hækkandi í efnahagslífinu og ferðaþjónustan er orðin burðarás efnahagslífsins í rauninni. Það er því ánægjulegt að fá það staðfest svart á hvítu. Við gerum ráð fyrir því að þetta muni ekki breytast mjög mikið á þessu ári og að þessi tala muni haldast á svipuðum slóðum" segir Jóhannes.

Stóra tækifærið að ná jafnvægi

Jóhannes telur að bjártsýni ríki innan ferðaþjónustunnar, þrátt fyrir ýmsa þætti sem gera greininni erfitt fyrir. „Við erum almennt bjartsýn í ferðaþjónustunni, þó að það sé ýmislegt sem gerir okkur erfitt fyrir um þessar mundir, bæði gengi krónunnar og launaþróun. Eins og margir hafa tekið eftir þá er farið að hægja á ferðamannastraumnum inn í landið og ferðahegðunin aðeins farin að breytast. Það þýðir það að ferðaþjónustan breytist eitthvað með, en það breytir því hinsvegar ekki að Ísland sem ferðaþjónustuland er komið til að vera. Við erum komin á kortið og stóra tækifærði til framtíðar er að ná jafnvægi í ferðaþjónustunni" segir Jóhannes.