Vodafone og Flugstöð Leifs Eiríkssonar hafa undirritað samning, um að Vodafone leigi aðstöðu fyrir fjarskiptabúnað í flugstöðinni sem tryggir viðskiptavinum Vodafone bestu mögulegu farsímaþjónustu á öllu flugvallarsvæðinu. Samningurinn styrkir enn stöðu Vodafone á fjarskiptamarkaðnum, ekki síst í harðri samkeppni um þjónustu við erlenda ferðamenn sem koma til landsins um Flugstöð Leifs Eiríkssonar.

Auk stöðugrar aukningar á markaðshlutdeild Vodafone á íslenskum fjarskiptamarkaði nýtur Vodafone mikilla vinsælda hjá erlendum ferðamönnum á Íslandi. Vörumerki félagsins  er þekkt um allan heim og daglega nota yfir 200 milljón farsímanotendur þjónustu Vodafone um víða veröld. Hér á landi býður Vodafone  stærra GSM þjónustusvæði en aðrir geta boðið og er í stöðugri sókn.

Samningur þessi er liður í að tryggja flugfarþegum sem fara um Flugstöð Leifs Eiríkssonar góða þjónustu. Árið 2007 fóru tæplega 2,2 milljónir farþega um flugstöðina og áætlað að sú tala verði komin í 3,2 milljónir árið 2015.