Nettókaup erlendra hlutabréfa námu tæpum 8,9 milljörðum króna í júnímánuði og jukust um 3,7 milljarða króna frá fyrra mánuði, eftir því sem kemur fram í Vegvísi Landsbankans. Á sama tíma í fyrra voru þau 3,8 milljarðar króna svo aukningin er umtalsverð.

Á síðastliðnum tólf mánuðum hafa nettókaupin aðeins verið meiri í tvígang, í apríl síðastliðnum og í desember 2004. Það sem af er árinu hafa nettókaupin verið 35,6 milljarðar króna en á sama tímabili í fyrra námu þau 34,2 milljörðum.

Nettókaupin voru mest í hlutabréfum, fyrir 4,6 milljarða í júní og 2,6 milljarða króna kaup á hlutdeildarskírteinum í erlendum verbréfasjóðum. Þess utan voru mikil nettókaup á skuldabréfum en munurinn á kaupum og sölu hefur aldrei verið jafn mikill og nú, eða 1,7 milljarðar króna. Að mati greiningardeildar Landsbankans má að mestu rekja aukin nettókaup til sterks gengis krónunnar.