Leiðandi hagvísir Analytica, sem gefur vísbendingu um efnahagsumsvif eftir hálft ár, lækkar áttunda mánuðinn í röð í ágústmánuði. Jafnframt er gildið fyrir júlímánuð endurskoðað niður á við en þessi þróun er sögð í tilkynningu Analytica bera vott um þá óvissu sem ríkir með efnahagshorfur nú á haustmánuðum.

Allir sex undirliðir vísitölunnar lækka, en þeir eru valdir út frá þáttum sem koma til í upphafi framleiðsluferilsins og þannig ætlaðir til að gefa vísbendingu um þróunina til framtíðar.

Mesta framlagið til lækkunar er debetkortaveltan, komur ferðamanna á Keflavíkurflugvöll og væntingavísitala Gallup. Samt sem áður segir í tilynningu Analytica að langtímauppleitni mikilvægra undirþátta sé enn sterk. Jafnframt eru það helst áhættuþættir í ytra umhverfi sem helst gætu ógnað hagvexti, þá einkum þeir sem eru tengdir stöðunni í alþjóðastjórnmálum.

Ákveðinn vendipunktur varð á þróun hagvísisins í júlí í fyrra sem fyrirtækið segir gefa til kynna mögulegan vendipunkt í vergri landsframleiðslu snemma á þessu ári.

Einnig er ákveðinn vendipunktur í janúar og febrúar á þessu ári sem gefur til kynna vendipunkt til lækkunar framleiðslu nú í haust. Nánar má lesa um málið á vef Analytica , en Yngvi Harðarson er framkvæmdastjóri félagsins.