Viðræður sem át hafa sér stað á milli Landsvirkjunar og álvers Rio Tinto Alcan (RTA) í Straumsvík um aukin orkukaup er lokið. Hefur náðst samkomulag um að Landsvirkjun útvegi RTA um 75MW raforku til viðbótar því sem nú er.

Með þessari viðbótarorku hyggst RTA auka framleiðslugetu sína um 40.000 tonn á ári að því er fram kemur í upplýsingariti Landsvirkjunar.

Nýr orkusölusamningur inniheldur einnig ákvæði um endurnýjun á eldri rafmagnssamningi sem Landsvirkjun telur afar mikilvægt. Með samkomulaginu hækkar orkuverðið og rekstur álversins verður tryggður til lengri tíma en ella, eða til ársins 2037.

Sem kunnugt er varð ekkert af fyrirhugaðri stækkun álversins í Straumsvík sem gerði ráð fyrir tæplega 200.000 tonna framleiðsluaukningu á ári. Var fyrirhugað að byggja tvo nýja kerskóla, en Hafnfirðingar höfnuðu því naumlega þegar kosið var um skipulagstillögu svæðisins.

Í framhaldinu átti RTA viðræður við Landsvirkjunum um orkukaup vegna nýs álvers sem staðsett yrði í Þorlákshöfn eða á Reykjanesi. Þau áform voru lögð á hilluna eftir að stjórn Landsvirkjunar gerði samþykkt um að dreifa áhættunni í orkusölu. Var þá samið við Verne Holding um rafmagnssölu til netþjónabús á Keflavíkurflugvelli.

Þá standa nú yfir viðræður um orkusölu til nokkurra annarra fyrirtækja sem yrðu hugsanlega staðsett í Þorlákshöfn. Áformar Landsvirkjunum að anna þessari orkuþörf með virkjunum í neðri hluta Þjórsár.