Töluverð aukning varð í sölu á mat og drykk frá sama mánuði í fyrra. Þannig jókst veltan að raunvirði um 3,7% frá júlí í fyrra og leiðrétt fyrir vikudaga- og árstíðabundnum þáttum jókst veltan um 4,1%. Á undanförnum árum hefur dregið úr vægi á veltu í matvöru fyrir verslunarmannahelgina í samanburði við aðrar helgar sumarsins. Matarinnkaup fyrir aðrar  helgar í júlí eru svipaðar og fyrir verslunarmannahelgina. Þetta kemur fram í frétt á vef Rannsóknarsetri verslunarinnar .

Fataverslun jókst umtalsvert í júlí, eða um 9,1% að raunvirði frá sama mánuði í fyrra. En fataverslun hefur verið í töluverðri lægð að undanförnu. Rannsóknasetrið leggur til að ef til vill hafi veðrið leitt til aukna fataverslunar í júlí auk þess sem þriggja prósenta verðlækkun á fötum hefur sín áhrif.

Sala á öðrum sérvörum, eins og raftækjum og húsgögnum, eykst í hröðum skrefum. Sala sérverslana með rúm jókst um 34,5% í júlí frá sama mánuði í fyrra. Á fyrstu sjö mánuðum þessa árs var sala á rúmum 15,4% meiri en sömu mánuði í fyrra. Sala á farsímum jókst einnig um 27,5% í júlí.

Sala áfengis jókst um 4,9% í júlí miðað við sama mánuð í fyrra á föstu verðlagi og jókst um 6,7% á breytilegu verðlagi. Leiðrétt fyrir vikudaga- og árstíðabundnum þáttum jókst velta áfengis í júlí um 2,5% frá sama mánuði í fyrra. Verð á áfengi var 1,7% hærra í júlí síðastliðnum en í sama mánuði í fyrra.