Walmart er einn af fáum smásölum sem náð hefur að aðlagast heimsfaraldrinum. Sala Walmart frá og með febrúar og út apríl síðastliðinn hækkaði verulega þar sem neytendur leituðu til verslunarrisans til að birgja sig upp af matvælum og öðrum heimilisvörum. WSJ greinir frá.

Sala Walmart, stærsta smásala Bandaríkjanna, jókst um 10% á tímabilinu miðað við sama ársfjórðung í fyrra. Á fyrstu mánuðum ársins hafa kaupvenjur neytenda breyst, margir samkeppnisaðilar Walmart þurftu tímabundið að hætta starfsemi og yfir 30 milljónir Bandaríkjamanna sóttu um atvinnuleysisbætur.

Fjöldi ferða í verslanir Walmart fækkuðu á ársfjórðunginum en eyðsla í hverri ferð hækkaði um 16,5%. Sala verslunarrisans jókst verulega í apríl vegna aukinnar greiðslugetu neytenda vegna björgunaraðgerða þarlendra stjórnvalda.

Fyrirtækið þurfti að auka útgjöld um 900 milljónir dollara vegna aukins kostnaðar í tengslum við COVID-19 veiruna. Laun starfsfólks sem vinnur í vöruhúsum hækkuðu og verslunarstarfsmenn fengu launauppbót. Walmart réð einnig 235 þúsund manns til að aðstoða starfsfólk í verslunum.

Þrátt fyrir aukinn kostnað þá hækkaði rekstrarhagnaður félagsins á tímabilinu. Tekjur Walmart hækkuðu um 8,6% í 134,6 milljarða dollara. Walmart vinnur hörðum höndum að því að auka birgðir vinsælla vara en birgðir félagsins minnkuðu um 6,1% á tímabilinu.

Stjórnendur fyrirtækisins sögðu að fyrirtækið hafi dregið afkomuspá núverandi rekstrarárs til baka vegna aukinnar óvissu. Þeir tóku einnig fram að fyrirtækið er í góðri stöðu til að tækla efnahagsástandið.

Sala netverslana Walmart hækkaði um 74%. „Sala netverslana til lengri tíma mun hækka, fyrirtæki sem geta skalað sig upp munu stækka við sig og Walmart mun auka markaðshlutdeild sína,“ segir Simeon Gutman, greiningaraðili sem sérhæfir sig í smásölu. „Spurningin verður frekar, hvernig þróast framlegðin?“

Gutman segir jafnframt að hinn hraði vöxtur netverslanna hafi sett aukið álag á aðfangakeðjur sem mun að öllum líkindum skila lægri framlegð.