Velta í dagvöruverslun jókst um 8,8% í maí síðastliðnum miðað við sama mánuð í fyrra, á föstu verðlagi. Á breytilegu verðlagi nam hækkunin 13,2%. Þá nam veltuauking í dagvöruverslun á milli mánaðanna apríl og maí 3,4% á breytilegu verðlagi. Þessi hækkun í maí er athyglisverð því hún á sér stað þó svo að apríl hafi verið páskamánuður sem er alltaf söluhár mánuður í dagvöruverslun segir í frétt  Rannsóknaseturs verslunarinnar.

Sambærileg aukning varð í sölu áfengis milli mánaðanna apríl og maí, en söluaukning áfengis nam 8,6% á föstu verðlagi.

Enn sem fyrr eru mun meiri sveiflur í sölu fata- og skóverslunar milli mánaða en í dagvöruverslun. Velta í fataverslun var 16,6% meiri í maí en í mánuðinum á undan og í skóverslun var aukningin 30,9% á milli mánaða. Ástæðuna fyrir þessari aukningu má að einhverju leyti rekja til þess að fleiri verslunardagar voru í maí en í apríl auk þess sem vorið er sá tími sem landsmenn endurnýja föt- og skó fyrir vorið.


Ýmsar hagspár sem birtar hafa verið að undanförnu gera ráð fyrir að dragi úr vexti einkaneyslu. Þess sjást þó ekki merki ef litið er til veltuaukningar í smásöluverslun sem nemur alls 7% frá síðustu áramótum, samkvæmt þeim veltutölum sem Rannsóknasetur verslunarinnar fær frá verslunum. Ekki virðist heldur hafa dregið úr einkaneyslu þegar litið er til greiðslukortaveltu, sem var 11% meiri fyrstu fjóra mánuði þessa árs samanborið við sama tímabil í fyrra. Þá er einnig mjög athyglisvert að nýskráning bíla jókst um 66% á milli mánaðanna apríl og maí síðastliðin. Aukin útgjöld heimilanna að undanförnu er aðeins að litlu leyti hægt að rekja til verðhækkana því vísitala neysluverðs (án húsnæðis) hækkaði um 1,5% frá áramótum. Þar sem kaupmáttur launa heldur áfram að aukast samkvæmt mælingu Hagstofunnar, má ætla að sölutölur í verslun haldi áfram að stíga á næstunni.