Á sama tíma og gangur hagkerfisins róast hefur sala myndlistarverka tekið við sér. Þetta kann að hljóma öfugsnúið, en menn sem þekkja til myndlistarmarkaðarins kannast vel við að umsvif á honum aukist samhliða samdrætti í efnahagslífinu. Ein skýringin sé sú að þegar að taki að kreppa fari margir að losa um eignir til að bæta fjárhagsstöðuna, og þá liggi nokkuð beint við að koma myndlist í verð.

Bjarni Sigurðsson, eigandi Smiðjunnar listhúss, segist hafa fundið ótvírætt fyrir auknum umsvifum síðustu misseri. „Það er búin að vera hörkugóð sala, meiri heldur en gengur og gerist. Þegar harðnar á dalnum virðist myndlistin koma sterk inn. Við höfum verið að sjá svolítið meira koma í sölu í niðursveiflum, myndir sem fólk er kannski búið að eiga í einhvern tíma, en þarf svo að losa um fjármuni.“

Bjarni segir þetta hafa birst hvað skýrast í kreppunni í kjölfar hrunsins, enda um allhressilega niðursveiflu að ræða. „Á eftirhrunsárunum tók salan nokkuð duglega við sér. Verðin lækkuðu náttúrulega svolítið, en salan jókst á móti. Svo kemur góðæri og þá hækka verðin aftur og salan róast, eins og við sáum þegar líða tók á ferðamannagóðærið.“

Kreppur koma jafnvægi á verðið
Guðmundur Jónsson hjá Listamönnum gallerí tekur ekki eins djúpt í árinni varðandi stöðuna í dag. „Ég get ekki sagt að mér finnist markaðurinn góður, en hann er svona þokkalegur. Við erum ekkert nálægt 2005-2007, en það er svosem kannski ólíklegt að það komi nokkurn tímann aftur.“

Hann tekur hins vegar í sama streng varðandi samband myndlistarsölu og gangs efnahagslífsins. Vandamálið við að vilja halda í málverk þegar vel árar en koma þeim svo í verð þegar í álinn syrtir sé auðvitað að ef allir gera það á sama tíma hrynur verðið einmitt þegar viðkomandi er að selja, en hefði verið mun hærra þegar fjárhagurinn var betri og verkið fékk að hanga óáreitt uppi á vegg.

„Kreppur eru ekkert endilega slæmar fyrir okkur, því þær eiga það til að þrýsta á fólk að selja og þá kemur meira inn á markaðinn og verðið lagast,“ segir Guðmundur og segir seljendur geta verið tilbúna að slá af allt að fjórðungi viðtekins verðmætis til að koma verki í verð þegar efnahagsástandið er slæmt. „Í uppgangi er lítið framboð af góðum myndum. Flestir eiga nóg af peningum og eru lítið að hugsa um að losa um eignir, svo þetta hangir bara uppi á vegg sem skraut. Svo náttúrulega þegar harðnar í ári ætla menn að fara að selja, en þá er oft komin kreppa og verðin farin að lækka.“

Bjarna og Guðmundi ber saman um að mest séu hagsveifluáhrifin – og mestar sveiflurnar almennt – á eldri og þekktari verkum á endursölumarkaði. Verðlag nýrra verka sé mun stöðugra, enda um lifibrauð listamannsins að ræða.

Grunnur markaður sem erfitt er að fullyrða um Athygli vekur að þetta samband þekkist almennt ekki erlendis, heldur fylgja myndlistarmarkaðir þar almennt hagsveiflunni, að sögn Kára Finnssonar, sérfræðings í myndlistarmörkuðum. „Á Íslandi er markaðurinn bara aðeins öðruvísi. Hann er minni og það er erfiðara að fullyrða um hvert hann er að stefna.“

Kári segir endursölumarkaðinn á íslandi einfaldlega ekki nógu þroskaðan til að hægt sé að draga áreiðanlegar tölfræðilegar ályktanir um tengsl hans við hagsveifluna. „Ég myndi fara mjög varlega í að tengja sölu myndlistar við hagþróun. Gögn um listmarkaðinn eru af mjög skornum skammti og markaðurinn grunnur. Það getur verið að það sé einhvers konar leitni sem markaðsaðilar finni fyrir, en það er mjög erfitt að fullyrða um djúpstæðara samhengi með nokkurri vissu.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .