Tesco, stærsta breska matvörukeðja Bretlands hefur átt erfitt uppdráttar á árinu en nýjar tölur frá Rannsóknarfyrirtækinu TNS Worldpanel leiða í ljós að vöxtur verslunarkeðjunnar hefur dregist saman um 7,2% í febrúar og mars síðastliðnum.

Tesco keðjan hefur hingað til vaxið um 10% á ári og Peter East hjá TNS Worldpanel telur að samdrátturinn nú sé til vitnis um stóraukna samkeppni á breska matvörumarkaðinum.

Tesco hefur um langt skeið verið stærsta keðjan á breskum markaði með um það bil 30,6% markaðshlutdeild en keðjur á borð við Morrison, Sainsbury, Waitrose, Asda og Iceland, sem er meðal annars í eigu Baugs og eignarhaldsfélagsins Fons, hafa veitt Tesco harða samkeppni og með þessu áframhaldi virðist vera útlit fyrir að dýrðardagar Tesco á toppnum séu liðnir og að markaðurinn skiptist í auknum mæli á milli stærri amkeppnisaðilanna.

Sérfræðingar telja þó að Tesco eigi ennþá mikið inni og benda í því sambandi á þá möguleika sem keðjan á í ónýttum lóðum. Tesco á um þessar mundir 185 lóðir sem hægt er að breyta í verslunarhúsnæði.

Tesco á því inni 4,5 milljón fermetra af ónýttu verslunarhúsnæði sem gæti fullnýtt gert það að verkum að markaðshlutdeild Tesco keðjunnar væri 45% á breska matvörumarkaðinum.