Írska lágfargjaldaflugfélagið Ryanair er á höttunum eftir nýjum flugvelli í Finnlandi, segir Karl Hogstadius, aðstoðarforstjóri félagins á Norðurlöndum, í nýlegu viðtali við finnska dagblaðið Taloussanomat. Fyrir flýgur félagið frá Tampere-flugvelli norður af höfuðborginni Helsinki.

Norræna lággjaldaflugfélagið Sterling, sem FL Group samþykkti að kaupa fyrir 15 milljarða á síðasta ári, mun hefja flug frá Helsinki í mars og er samkeppnin á finnska flugmarkaðnum því að herðast.

Hogstadius segist búast við aukinni eftirspurn eftir flugferðum til og frá Finnlandi. "Á síðasta ári fluttum við um 350 þúsund farþega til og frá Finnlandi, en við búumst við að flytja á bilinu 400-450 þúsund farþega á þessu ári," segir hann.

Sjö lággjaldaflugfélög eru nú með starfssemi á Finnlandi. Sænska flugfélagið FlyMe, sem er að meirihluta í eigu Pálma Haraldssonar, germanwinds, sem er í eigu Lufhansa, og Blue1, sem er í eigu SAS, fljúga öll frá Finnlandi. Einnig mun Air Berlin hefja flug frá Helsinki til London í næsta mánuði og Finland er heimmarkaður lággjaldaarms finnska flugfélagsins Finnair. Straumur-Burðarás og FL Group eru stærstu hluthafarnir í félaginu á eftir finnska ríkinu.