Frá því í seinni hluta janúar hefur bókunum fækkað hjá Icelandair, en hefur þó tekið við sér aðeins á síðustu dögum. Kom þetta fram í máli Björgólfs Jóhannssonar, forstjóra félagsins, á afkomufundi í dag. Hann sagði að samdrátturinn væri einkum um að kenna aukinni samkeppni á markaði, en einnig hefði óvissa í alþjóðastjórnmálum áhrif. Síðustu daga hafi félagið lækkað fargjöld til að bæta samkeppnisstöðu sína og síðan þá hafi bókanir tekið við sér á ný.

Í máli hans kom fram að á árinu 2017 muni fjöldi flugferða yfir Atlantshafið í heild sinni aukast um 5-6%, en að lággjaldaflugfélög standi á bak við um helming þessarar fjölgunar. Þetta hafi sett aukinn þrýsting á tekjur félagsins, en auk þess hafi veiking evru og punds aukið þessi áhrif.

Hann sagði að uppbygging í hótelrekstri félagsins hafi verið kostnaðarsamari en hjá mörgum öðrum. Tekjulega sé félagið ekki að ná inn þeim gæðum sem það er að bjóða upp á. Vinna, sem hafi það að markmiði að ná inn fleiri betur borgandi ferðamenn, muni hafa áhrif til lengri tíma. „Við trúum því að þessi vara okkar, hótelin, komi til með að skila til lengri tíma betri afkomu.“

Björgólfur sagði að verið væri að lækka verð á Saga-class og að markmiðið væri að ná meiri sveigjanleika. Í raun væri verið að búa til tvö farrými á Saga-class. Annars vegar þar sem notandi greiðir fullt verð fyrir fullan sveigjanleika, en hins vegar þar sem notandi vill fljúga á Saga-class, en er tilbúinn að binda sig til lengri tíma. Hann sagði að taka muni tíma að innleiða þessa breytingu, en að hún ætti að styrkja félagið tekjulega.

Björgólfur var spurður að því hvort þessi breyting benti til þess að Icelandair væri að nálgast lággjaldaflugfélögin. Hann sagði að flugfélög eins og Norwegian hefði sett þrýsting á hefðbundin flugfélög í Atlantshafsflugi og að það geri kröfu um að þau aðlagi kostnaðarhliðina. Það sé vinna sem Icelandair ætlaði sér að taka að fullu þátt í.

Hann var einnig spurður að því hvort til greina kæmi að setja á stofn tvö vörumerki, annars vegar hið hefðbundna Icelandair og hins vegar lággjaldafélag. „Það koma kynslóðir sem breyta neyslumynstrinu. Það er væntanlega ein að koma þannig núna. Ég man ekki hvað hún er kölluð…. me, me, me,“ sagði Björgólfur. „Ég held hún vilji bara fá þjónustu og eiga möguleika á að kaupa þjónustu. Við verðum að breyta okkur í þessa áttina.“

Hvað varðar hugmyndir um stofnun lággjaldaflugfélags sagði hann að ekki hefði farið fram nein alvarleg skoðun á því.

Horfa má á fundinn í heild sinni hér: