Innanríkisráðuneytið bregst við tilmælum Samkeppniseftirlitsins um samkeppni við úthlutun afgreiðslutíma í Leifsstöð. Hyggst ráðuneytið ljúka í haust vinnu við að meta það svigrúm sem stjórnvöld hafa til að stuðla að aukinni samkeppni í áætlunarflugi um Keflavíkurflugvöll.

Wow kvartaði yfir samkeppnisforskoti Icelandair

Kemur þetta fram í svari ráðuneytissins við fyrirspurn Félags atvinnurekenda við tilmælum Samkeppniseftirlitsins frá því í október í fyrra. Tilmælin komu í kjölfar kvörtunar Wow air yfir því að Icelandair hafi notið samkeppnisforskots í forgangi á afgreiðslutímum á Keflavíkurflugvelli.

Leiddi rannsókn Samkeppniseftirlitsins í ljós að Icelandair hafi ekki einungis hlotið forgangs á afgreiðslutímum sem félagið hafði fengið úthlutað áður, heldur einnig á úthlutun nýrra afgreiðslutíma. Eru afgreiðslutímar milli 7:00 og 8:00 og milli 16:00 og 17:00 sérstaklega mikilvægi rfyrir flugfélög sem vilja koma á samkeppni í tengiflugi milli Evrópu og Norður Ameríku.

Afgreiðslutímar takmörkuð gæði

Segir í svari ráðuneytisins að álit Samkeppniseftirlitsins sé „mikilvægt innlegg í umræðu um uppbyggingu og skipulag á samgönguinnviðum hér á landi en með auknum samgöngum til og frá landinu er ljóst að takmörkuð gæði líkt og Keflavíkurflugvöllur geta skipt sköpum þegar kemur að samkeppni.“

Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA, fagnar því að ráðuneytið sé að vinna í málinu og segir í yfirlýsingu:

„Það er ekki eingöngu Samkeppniseftirlitið, heldur einnig OECD, sem hefur bent á að stjórnvöld geti gert meira til að draga úr samkeppnishömlum á Keflavíkurflugvelli. Evrópska regluverkinu sem ráðuneytið vísar til er einmitt ætlað að tryggja sanngjarna samkeppni, þannig að við hjá FA erum bjartsýn á að lausn finnist sem tryggi að flugfélög sitji við sama borð í Leifsstöð. Það er líka hlutverk ríkisins að auka afkastagetu flugvallarins. Innviðir sem hið opinbera ber ábyrgð á að byggja upp eiga ekki að vera flöskuháls í stækkun markaðarins.“